Breytingartillaga við 79. grein frumvarps til umferðarlaga hefur verið afturkölluð en umrædd tillaga sneri að því að framlengja hjálmaskyldu til átján ára aldurs. Hjálmaskylda hefur hingað til aðeins verið til fimmtán ára aldurs.
Tillagan hefur sætt mikilli gagnrýni, meðal annars frá Landsamtökum hjólreiðamanna og sérfræðingi í bráðalækningum sem sagði hana ganga of langt, sérstaklega í ljósi þess að áhrif hjálma væru minni en fólk telur almennt séð.
Sjá einnig: Eðlilegra að skylda ökumenn til hjálmanotkunar frekar en hjólreiðamenn
Samgöngunefnd segir það vera mat nefndarinnar að mikilvægt sé að öryggi sé í hávegum haft þegar kemur að hjólreiðum rétt eins og öðrum samgöngumátum. Þó sé kappsmál að hjólreiðar verði útbreiddur ferðamáti, bæði meðal fullorðinna og barna, með hliðsjón af lýðheilsu- og loftslagssjónarmiðum.
Nefndin segir ekki áreiðanlegar rannsóknir um hjálmanotkun hér á landi vera fyrir hendi og það sé nauðsynlegt að slík rannsókn verði framkvæmd hér á landi. Það sé jafnframt mat nefndarinnar að hjálmaskylda skuli ná til barna undir sextán ára aldri en þar með verði tryggt að hjálmaskylda taki til allra barna á grunnskólastigi.

