Það er ekki á hverjum degi sem nýr veitingastaður opnar í Hveragerði og hvað þá að tveir af reynslumestu veitingamönnum landsins séu við stjórnvölinn, þeir Jakob og Guðmundur Guðjónsson, sem saman ráku Jómfrúna í Lækjargötu í miðborg Reykjavíkur í tæp tuttugu ár.
„Það er nú kannski vegna þess að Hveragerði og nærsveitir Reykjavíkur eru í mikilli sókn. Það er mikil uppbygging alls staðar í kringum Reykjavík, ekki síst í Hveragerði. Svo hef ég búið hér í sveit rétt utan Hveragerðis í áratugi. Það er aðalástæðan,“ segir Jakob um ástæður þess að Hveragerði hafi orðið fyrir valinu.

Vildu eiga hverja einustu flís
Þeir sem lagt hafa leið sína til Hveragerðis kannast ef til vill við húsið sem Matkránna má finna, Breiðamörk 10. Þar var um árabil ísbúð og ýmis konar annar rekstur en Jakob og Guðmundur fjárfestu í húsnæðinu skömmu eftir að þeir seldu Jómfrúna árið 2015.Í millitíðinni nutu þeir lífsins og ferðuðust en Jakob segist vera haldinn veiru sem hann losni ekki svo glatt við. Hún orsaki opnun Matkrárinnar.
„Við erum ekki alveg nógu gamlir til að hætta. Ég kalla þetta að vera haldinn svona veitingaveiru. Hún kemur alltaf upp annað slagið. Hún drepur ekki en hún tekur á,“ segir Jakob.
Þegar leigjendur húsnæðisins vildu nýverið frá að hverfa ákváðu Jakob og Guðmundur að stökkva til og hella sér aftur út í veitingareksturinn.
„Það blundaði alltaf í okkur að opna veitingastað þar sem við ættum allt, frá hverri flís,“ segir Jakob en hann og Guðmundur sáu alfarið um hönnun á útliti veitingastaðarins.
„Við horfum töluvert til skandinavískar hönnunar, sjöunda og áttunda áratugarins. Hér er mikil eik eins og var þá. Matseldina erum við líka að sækja í skandinavískar og norrænar hefðir,“ segir Jakob sem virðist vera ánægður með að vera í Hveragerði, fremur en í miðborginni líkt og áður, enda þrengir að veitingamönnum sem þar eru með rekstur.

Spáir ekkert í heimsendaspám
Um þessar mundir berast helst fréttir af lokunum á hótelum og veitingastöðum, útlit er fyrir samdrátt í komu ferðamanna hingað til lands og því mun mögulega kreppa að víða í samfélaginu. Það hefur hins vegar ekki letjandi áhrif á Jakob og Guðmund.„Nei nei, ég hef aldrei pælt í svona spám. Þú bara gerir þitt besta og ef kúnninn þinn kemur oftar en einu sinni þá nægja mér Íslendingarnir,“ segir Jakob.
En munu fastagestir Jómfrúarinnar kannast við matseðilinn á Matkránni?
„Já, þeir munu gera það.“