Körfubolti

Fyrstu bræðurnir til að verða NBA-meistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gasol virðir NBA-bikarinn fyrir sér.
Gasol virðir NBA-bikarinn fyrir sér. vísir/getty
Spánverjarnir Marc og Pau Gasol eru fyrstu bræðurnir sem verða NBA-meistarar í körfubolta.

Marc var í stóru hlutverki hjá Toronto Raptors sem tryggði sér meistaratitilinn með sigri á Golden State Warriors, 110-114, í nótt. Toronto vann einvígið, 4-2.

Marc lék þar með sama leik og eldri bróðir sinn sem varð meistari með Los Angeles Lakers 2009 og 2010.



Pau var fljótur að óska litla bróður, sem er reyndar 2,16 metrar á hæð, til hamingju eftir sigur Toronto í Oakland í nótt.



Báðir bræðurnir hófu feril sinn í NBA með Memphis Grizzlies. Pau lék með liðinu frá 2001 til 2008 þegar honum var skipt til Lakers.

Í skiptunum á Pau fékk Memphis réttinn á Marc sem lék þá á Spáni. Marc gekk í raðir Memphis 2008 og lék með liðinu þar til í byrjun þessa árs þegar honum var skipt til Toronto.

Marc skoraði þrjú stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum gegn Golden State í nótt. Í úrslitakeppninni var hann með 9,4 stig, 6,4 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Gasol-bræðurnir urðu saman heimsmeistarar með spænska landsliðinu 2006 og Evrópumeistarar 2009 og 2011. Þeir unnu einnig silfur á Ólympíuleikunum 2008 og 2012.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×