Mál rannsóknarblaðamannsins Ívans Golunov sem lögreglan í Moskvu reyndi að koma sök á heldur áfram að draga dilk á eftir sér. Vladímír Pútín forseti hefur nú rekið tvo af æðstu stjórnendum lögreglunnar í Moskvu vegna þess.
Golunov, sem hefur meðal annars fjallað um vafasama fjármálagjörninga og ritskoðun á fjölmiðlum í Rússlandi, var handtekinn og sakaður um stórfellda fíkniefnasölu í síðustu viku. Fangelsun hans vakti mikla athygli og reiði. Honum var sleppt úr haldi á þriðjudag eftir að upplýsingar komu fram sem virtust staðfesta að lögreglumenn hefðu reynt að koma á hann sök.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að Pútín forseti hafi nú rekið Andrei Pútsjkov, liðsforingja og lögreglustjórann í Vestur Moskvu, og Júrí Devjatkin, liðsforingja og yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar.
Pútín hefur ekki tjáð sig um málið en talsmaður hans sagði stjórnvöld í Kreml fylgjast grannt með því á þriðjudag. Forsetinn er sagður vilja lægja öldurnar áður en hann árlegur símatími hans hefst 20. júní. Þar gefst landsmönnum tækifæri á að hringja inn og tala við forsetann.
Lögmenn Golunov fullyrða að lögreglumenn hafi komið fíkniefnum fyrir á honum. Þá hefur komið í ljós að lögreglumyndir sem áttu að sýna búnað til framleiðslu fíkniefna í íbúð blaðamannsins hafi alls ekki verið teknar þar.
Lögreglumönnunum sem handtóku Golunov hefur verið vikið úr starfi tímabundið. Þeir eru einnig sakaðir um að hafa barið blaðamanninn í varðhaldi.
Hundruð mótmælenda voru handtekin í Moskvu í gær. Þeir kröfðust þess að einhver yrði dreginn til ábyrgðar fyrir handtöku Golunov og meðferðina á honum.
