Kjarnaskógur er sannkölluð náttúruparadís. Á veturna ræður gönguskíðafólk ríkjum en á sumrin tekur strandblakið yfir.
Fjöldi fólks stundar þar strandblak að staðaldri og til marks um það voru 17 lið skráð til leiks á Krákumótinu sem haldið var í Kjarnaskógi á dögunum. Skipuleggjendur segja að þeir sem prófi séu fljótir að fá blakbakteríuna.

Mikil blakmenning er á Akureyri og í nærsveitum. Sandurinn breytir hins vegar miklu frá hinu hefðbundna inniblaki.
„Þetta er hörku líkamsrækt. Manni finnst maður vera ansi kvikk en þegar maður er kominn í sandinn og maður er að stökkva til þá er líkaminn svolítið á eftir hausnum þannig að maður nær ekki boltanum alltaf,“ segir Anna Kristín.

„Við erum hérna með byrjendaflokk og þar er fólk sem hefur eiginlega aldrei spilað blak, þannig að það geta allir komið,“ segir Anna Kristín.

„Ég mæli bara með að fólk komi hérna og prófi þetta.“