Eitt af síðustu verkum Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, sem lætur af embætti á miðvikudag, var að boða til neyðaröryggisfundar í dag þar sem farið var yfir hvernig stjórnvöld muni bregðast við hertöku íranskra yfirvalda á olíuskipinu Stena Impero.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra mætti til fundarins í Downingstræti tíu fyrir hádegi en á fundinum var farið yfir hvernig tryggja megi öryggi olíu- og flutningaskipa sem fara í gegnum Hórmussund í minni Persaflóa.
Eigandi skipsins, sænska fyrirtækið Stena Bulk, staðfesti í gær að allir tuttugu og þrír skipverjar Stena Imperio væru við góða heilsu. Skipið, sem siglir undir breskum fána, liggur við höfn í borginni Bandar Abbas þar sem það var kyrrsett. Skipverjar voru yfirheyrðir í gær.
Talsmaður íranskra stjórnvalda sagði á blaðamannafundi í dag að fyrst bresk stjórnvöld stöðvuðu för og kyrrsettu íranskt skip við Gíbraltar fyrr í mánuðinum hefði mátt gera ráð fyrir að írönsk stjórnvöld myndi gera slík hið sama.
„Að sjálfsögðu höfum við alltaf trúa á því að diplómatísk lausn finnist á þessu vandamáli,“ sagði Ali Rabiei, talsmaður íranskra stjórnvalda.
„Sum ríki hafa farið fram á tafarlausa afhendingu breska olíuskipsins. Við biðjum þessi sömu ríki að krefjast þess sama af Bretum fyrst,“ bætti hann við.
Bresk stjórnvöld ætla hins að grípa til aðgerða á svæðinu við Hormússund í kjölfar atviksins á föstudag en þegar hefur öryggisstig verið hækkað í stig þrjú.
„Í öðru lagi: Þar sem frelsi til siglinga er öllum þjóðum nauðsynlegt munum við nú reyna að setja saman evrópskan leiðangur til að verja siglingaleiðir og styðja örugga för áhafna og farms á þessu mikilvæga svæði. Við höfum átt uppbyggilegar viðræður við nokkur ríki síðustu tvo sólarhringa og við munum seinna í þessari viku ræða bestu leiðina til að bæta þetta upp með nýlegum tillögum Bandaríkjamanna á þessu svæði,“ sagði Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands.