Það eru margir aðdáendur ameríska fótboltans búnir að bíða spenntir eftir Hard Knocks þáttunum í ár og í kvöld er sú bið loksins á enda.
Eftir að ljóst varð að NFL Hard Knocks fylgdi eftir Oakland Raiders liðinu að þessu sinni þá vissi NFL áhugafólk að eitthvað gott væri í vændum.
Hard Knocks eru flottir þættir um undirbúning Oakland Raiders fyrir veturinn í NFL deildinni en myndavélarnar fá að vera inn á öllum æfingum, liðsfundum og einkafundum liðsins í æfingabúðunum.
Fyrsti þáttur Hard Knocks 2019 verður sýndur á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst klukkan 19.00 eða strax á eftir leik Liverpool og Chelsea um Ofurbikar Evrópu.
Það sem hefur gert Hard Knocks þáttinn í ár enn meira spennandi er öll sápuóperan í kringum stjörnuútherjann Antonio Brown sem kom í skiptum frá Pittsburgh Steelers. Oakland Raiders er líka að reyna að stimpla sig inn í umræðuna áður en liðið flytur til Las Vegas.
Antonio Brown mætti á fyrstu æfinguna í loftbelg en frysti síðan iljarnar á sér í kæliklefanum og hefur ekkert gerað æft. Það má búast við að öll dramatíkin í kringum Antonio Brown fái gott pláss í þáttunum en eins verða örugglega margar skemmtilegar sögur af leikmönnum að berjast fyrir sæti sínu í liðinu.
Þættirnir eru alls fimm talsins og verða sýndir vikulega á Stöð 2 Sport þar til að tímabilið hefst.
Í fyrra var Cleveland Browns í Hard Knocks og heppnuðust þeir þættir mjög vel.
