Erlent

Stefnir í fjórðu kosningarnar á jafnmörgum árum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Allt frá því Spánverjar kusu sér nýtt þing í lok apríl síðastliðins hafa leiðtogar flokka á þingi reynt að mynda ríkisstjórn. Þrátt fyrir margra mánaða viðræður eru þeir hins vegar hvergi nærri því að ná samkomulagi og þingið hefur fellt tillögur um að Pedro Sanchez, starfandi forsætisráðherra, verði skipaður forsætisráðherra landsins.

Spánarkonungur hefur síðustu daga fundað með leiðtogum allra flokka á þingi og að öllu óbreyttu verður þing rofið í næstu viku. Útlit er fyrir fjórðu þingkosningarnar á jafnmörgum árum.

„Niðurstaðan er skýr, það er enginn meirihluti í þinginu sem getur myndað ríkisstjórn. Þess vegna liggur það fyrir að endurtaka verður kosningarnar þann 10. nóvember,“ sagði Sanchez í gærkvöldi.

Sósíalistaflokkur Sanchez fékk 123 sæti af 350 í neðri deild spænska þingsins eftir kosningarnar í apríl og hefur sá þingstyrkur ekki dugað til þess að mynda stjórn. Hægriflokkarnir, Borgaraflokkurinn og Lýðflokkurinn, eru heldur ekki með meirihluta og ekki myndi duga að fá öfgaíhaldsflokkinn Vox að borðinu.

Vinstriflokkurinn Podemos, sem á einna mesta samleið með Sósíalistaflokknum, hefur ekki getað komist að samkomulagi við Sanchez um stjórnarmyndun. Þá hefur ekkert samkomulag náðst við flokka katalónskra sjálfstæðissinna né hægriflokkana.

„Við lögðum til framsækna ríkisstjórn sem myndi ekki reiða sig á flokka sjálfstæðissinna. Því miður hafa bæði Lýðflokkurinn og Borgaraflokkurinn, sem vita fullvel að það er enginn þingmeirihluti sem styðst ekki við Sósíalistaflokkinn, komið í veg fyrir þessa embættisveitingu,“ sagði Sanchez aukinheldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×