Dómarar við æðsta borgaradómstól Skotlands úrskurðaði í dag að ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um að freta þingfundum sé ólögleg. Þingi var frestað í gær vel fram í október, rétt fyrir fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að úrskurðurinn hafi ekki áhrif á frestun þingfunda þar sem dómararnir gáfu ekki út neina tilskipun þess efnis. Hæstiréttur Bretlands ætlar að taka málið fyrir í næstu viku.
Þverpólitískur hópur þingmanna leitaði til dómstólsins vegna ákvörðunar Johnson sem hefur verið harðlega gagnrýnd sem ólýðræðisleg. Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að Johnson hafi ákveðið að fresta þingfundum til að „múlbinda þingið á óviðeigandi hátt“. Sneru þeir þannig við úrskurði dómstólsins frá því í síðustu viku.
Talsmaður forsætisráðuneytisins segir úrskurðinn valda vonbrigðum og að honum verði áfrýjað til hæstaréttarins.
Breska þingið kemur ekki saman aftur fyrr en 14. október, aðeins tveimur vikum fyrir fyrirhugaða útgöngu úr Evrópusambandinu. Johnson hefur verið sakaður um að hafa frestað þingi til að koma í veg fyrir að það samþykki frumvarp sem bannaði honum að draga Bretland úr sambandinu án samnings.
Skoskur dómstóll telur frestun þingfunda ólöglega

Tengdar fréttir

Þingfundum verður frestað og útlit fyrir að kosningum verði hafnað
Útlit er fyrir að breska þingið hafni í kvöld tillögu Boris Johnson forsætisráðherra um að boða til kosninga. Þingfundum verður frestað í kvöld og kemur þing ekki aftur saman fyrr en í október.

Frestun þingfunda í Bretlandi dæmd lögleg
Skoskur dómstóll segir þá ákvörðun Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að fresta þingfundum í september og þar til skömmu áður en Bretland gengur úr Evrópusambandinu (Brexit) í lok október, vera lögmæta.

Samþykktu að fresta Brexit í fyrstu atkvæðagreiðslu
Frumvarpið sem breska þingið samþykkti í dag myndi knýja Boris Johnson til að fresta útgöngunni úr Evrópusambandinu.