Fimm létu lífið þegar óeirðarseggir réðust inn í fataverksmiðju í Santiago höfuðborg Chile í gærkvöldi.
Mikil mótmæli hafa verið í landinu síðustu daga og hefur herinn skorist í leikinn og beitt táragasi og háþrýstivatnsbyssum á fólkið.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í höfuðborginni og stendur til að gera slíkt hið sama í fleiri borgum í dag.
Mótmælin hófust þegar ríkisstjórn landsins ákvað að hækka fargjöld í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar og þrátt fyrir að hætt hafi verið við þá hækkun hafa mótmælin haldið áfram og snúast nú um þann ójöfnuð sem er á milli hinna ríku og annarra íbúa landsins.

