Launakjör flugliða og flugmanna Play hafa verið til umfjöllunar allt frá blaðamannafundi flugfélagsins á þriðjudag. Þar greindi forstjóri Play, Arnar Már Magnússon, frá því að þegar hafi verið gengið til kjarasamninga við stéttarfélag umræddra stétta, Íslenska flugstéttarfélagið (ÍFF). Starfsmönnum Play yrðu greidd laun í samræmi við íslenska samninga, enda flugfélagið með höfuðstöðvar hér á landi.
Það vakti því athygli í gær þegar fregnir bárust af fjárfestakynningu Play og fullyrðingum sem þar birtast um kostnaðaraðhald félagsins. Í krafti fyrrnefnds kjarasamnings við ÍFF hafi stjórnendum Play tekist að lækka launakostnað um 27 til 37 prósent, samanborið við það sem viðgekkst hjá WOW air á sínum tíma. Jafnframt muni Play ná fram betri nýtingu áhafna en þekkst hefur, næstum tvöfalt betri en Icelandair býr við.
Alþýðusamband Íslands hefur tvívegis gert athugasemd við kjarasamningagerð Play, strax eftir blaðamannafundinn á þriðjudag og svo aftur í pistli forsetans nú eftir hádegi. Það sé varhugavert að mati ASÍ að semja svo afdráttarlaust um launakjör áður en nokkur flugliði hafi verið ráðinn og því hafi þeir ekki geta haft aðkomu að eigin kjarasamningagerð.
Fyrrum WOW-liðar sáttir
María Margrét Jóhannsdóttir, talsmaður Play, segir það vissulega rétt að starfsmannakjör flugfélagsins séu byggð upp með öðrum hætti en tíðkast hefur - enda hafi verið „löngu tímabært að ráðast í þá endurskoðun.“ Flugfélagið hafi átt í „mjög góðu samstarfi við alla aðila máls og teljum að það muni ríkja almenn sátt um samningana.“Hún vill að sama skapi taka fram að það sé ekki rétt sem ASÍ hefur haldið fram. Flugliðar hafi samið um kaup og kjör. Þá tekur María jafnframt fram að fyrrum starfsmenn WOW hafi margir hverjir leitað atvinnu erlendis eftir fall flugfélagsins. Launakjör Play séu betri en starfsmönnum WOW býðst erlendis og séu þeir WOW-liðar sem hafi séð samningana ánægðir með þá - „auk þess sem þau starfa hér heima,“ sem verði að teljast kostur.
Þó verði ekki hjá því litið að Play er lággjaldaflugfélag og reksturinn verði að taka mið af því. Til að mynda mun starfsfólk Play þurfa að verða sér sjálft úti um flutning til og frá Keflavíkurflugvelli, en íslensku flugfélögin hafa alla jafnt séð starfsfólki fyrir rútuferðum að flugvellinum. Starfsmenn fái bifreiðastyrk á móti og bætir María við að fyrirkomulag Play sé það sem tíðkist almennt erlendis.
Það sé afstaða félagsins að það muni bjóða upp á „mjög góð laun fyrir skemmtilegt og fjölbreytt starf.“ Á síðustu þremur dögum hafi borist um tvö þúsund starfsumsóknir og enn séu fimm dagar eftir af umsóknarfrestinum.