Forsetakosningar fara fram í Alsír í dag eftir margra mánaða óvissuástand í stjórnmálum landsins.
Fjölmenn mótmæli hafa átt sér stað í landinu í aðdraganda kosninganna, þar sem stjórnarandstæðingar líta á framkvæmd þeirra sem leið fyrir valdastéttina til að viðhalda völdum.

Alls opnuðu um 61 þúsund kjörstaðir í landinu í morgun. Búist er við að kosningaþátttaka verði lítil þar sem margir hafa hvatt til þess að kjósendur sniðgangi kosningarnar. Allir þeir fimm sem eru í framboði hafa áður starfað fyrir valdaflokk landsins.
Kjörstöðum verður lokað um kvöldmatarleytið, en ekki er búist við að úrslit liggi fyrir fyrr en á morgun.
Fyrr á árinu reis upp mikil mótmælaalda gegn forsetanum Abdelaziz Bouteflika. Hann sagði stýrt landinu frá 1999 og sagði loks af sér í apríl. Hann hafði glímt við heilsubrest síðustu ár og hafði ekki komið fram opinberlega í um fjögur ár.
Í kjölfar afsagnar Bouteflika var hinn 77 ára Abdelkader Bensalah, forseti efri deildar þingsins, skipaður forseti til bráðabirgða.