Viðskipti innlent

Ráðin nýr fram­kvæmda­stjóri Dis­ti­ca

Atli Ísleifsson skrifar
Júlía Rós Atladóttir.
Júlía Rós Atladóttir. veritas

Júlía Rós Atladóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Distica. Tekur hún við starfinu af Gylfa Rútssyni, sem gengt hefur starfi framkvæmdastjóra frá stofnun félagsins árið 2006.

Júlía Rós starfaði síðast sem framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi.

Í tilkynningu kemur fram að Júlía Rós hafi lokið meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, diplómanámi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, diplóma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands, B.Ed. gráðu frá Háskóla Íslands og lyfjatæknanámi frá Heilbrigðisskólanum við Ármúla.

„Júlía Rós hefur jafnframt víðtæka reynslu af þjónustu, rekstri og stjórnun í flóknu umhverfi vörustjórnunar bæði úr lyfjaiðnaði sem utan, en hún starfaði áður sem markaðsstjóri hjá lyfjafyrirtækinu Vistor, deildarstjóri vöruhúsa hjá Distica, þjónustustjóri hjá Icelandair og verkefnastjóri á þróunarsviði Actavis Group. Síðast starfaði Júlía Rós sem framkvæmdastjóri vörustjórnunarsviðs Coca-Cola á Íslandi. Júlía Rós situr í stjórn Vörustjórnunarfélags Íslands.

Júlía Rós er gift Hermanni Björnssyni og eiga þau fjögur börn á aldrinum 10 til 17 ára,“ segir í tilkynningunni.

Distica sérhæfir sig í vörustjórnun fyrir fyrirtæki á heilbrigðismarkaði og dreifir meðal annars lyfjum, rannsóknartækjum, rekstrarvörum og neytendavörum til sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila, tannlækna, dýralækna og verslana. Árstekjur Distica 2019 voru 19,5 milljarðar og stöðugildi 78, að því er fram kemur í tilkynningunni. Fyrirtækið er dótturfélag innan Veritas samstæðunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×