Erlent

Ætla að loka Langbarðalandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ung kona á Duomotorgi í Mílanó, höfuðborg Langbarðalands. Við hefðbundnar kringumstæður má sjá hundruð ef ekki þúsundir ferðamanna á torginu.
Ung kona á Duomotorgi í Mílanó, höfuðborg Langbarðalands. Við hefðbundnar kringumstæður má sjá hundruð ef ekki þúsundir ferðamanna á torginu. EPA/MATTEO BAZZI

Ríkisstjórn Ítalíu undirbýr nú að setja héraðið Langbarðaland, eða Lombardy á ensku, allt í sóttkví. Í raun að loka fjölmennasta og auðugasta héraði Ítalíu, þar sem um tíu milljónir manna búa. Er það liður í nýjum aðgerðum gegn nýju kórónuveirunni sem búist er við að verði samþykktar í kvöld eða nótt og eiga að taka gildi á morgun.

Aðgerðir þessar fela meðal annars í sér að meina fólki að ferðast til héraðsins og ferðast frá því innan Ítalíu. Einnig er lagt til að íbúar Langbarðalands forðist að ferðast innan héraðsins. Sóttkvíin mun einnig gilda um ellefu sýslur í fjórum öðrum héröðum Ítalíu.

Nánast öllum samkomustöðum verður lokað á þessum svæðum og fjöldasamkomur bannaðar. Þá eiga vinnuveitendur að gera starfsmönnum sínum kleift að vinna að heima, eins og auðið er, samkvæmt frétt Reuters.

Kaffihús mega þó vera opin áfram, svo lengi sem hægt sé að tryggja minnst eins metra bil á milli viðskiptavina þeirra.

Staðfestum smitum á Ítalíu hefur fjölgað um rúmlega 1.200 á einum sólarhring. Faraldur þar í landi er sá versti í Evrópu en í heildina er vitað til þess að 5.883 hafi smitast og 233 hafa dáið, samkvæmt frétt Guardian.

Staðan er langverst í Langbarðalandi þar sem um 85 prósent staðfestra tilfella hafa komið upp og 92 prósent dauðsfalla. Eins og áður segir eru íbúar Lombardyhéraðs um tíu milljónir en heildar íbúafjöldi Ítalíu er um 60 milljónir. Það er því ljóst að aðgerðirnar eru gífurlega umfangsmiklar.

Búist er við því að faraldurinn muni koma verulega illa á efnahagi Ítalíu og þá sérstaklega á ferðaþjónustunni þar í landi.

Bætt við 23:40 - Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hefur ekki skrifað undir aðgerðirnar eins og búist var við. Ríkisstjórar Langbarðalands og annarra héraða hafa mótmælt aðgerðunum fyrirhuguðu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×