Tvítugur maður lést, einni konu var nauðgað og minnst þrír hafa lent í stunguárás á tveimur ólöglegum samkomum á stór-Manchester svæðinu í Englandi. Alls sóttu sex þúsund manns samkomurnar, sem fram fóru í gær.
Um er að ræða tónlistarböll (e. rave) sem blásið var til þrátt fyrir tilmæli til almennings í Bretlandi um að koma ekki saman til þess að forða frekari útbreiðslu kórónuveirunnar. Böllin fóru fram í Daisy Nook County-garðinum annars vegar og Carrington hins vegar.
Í Daisy Nook lést tvítugur maður meðan á samkomunni þar stóð, en hann er talinn hafa innbyrt of stóran skammt fíkniefna. Í Carrington urðu síðan þrjár stunguárásir, auk þess sem 18 ára konu var nauðgað, að sögn lögreglunnar á svæðinu. Fórnarlamb einnar stunguárásarinnar er í lífshættu.
Myndir frá vettvangi má meðal annars sjá á vef breska ríkisútvarpsins BBC, þar sem fjallað er um málið. Sjá má straum ungs fólks á leiðinni á ball. Á einum stað mátti sjá stóran borða sem á stóð „Sóttkvíarball“ (e. Quarantine Rave).