Formanni Nýja lýðræðisflokksins, Jagmeet Singh, var gert að yfirgefa þingsal fulltrúadeildar Kanadaþings eftir að hafa sakað annan þingmann um kynþáttafordóma eftir að hann hafði ekki stutt tillögu sína fyrir þinginu. CNN greinir frá.
Singh sakaði Alain Therrien, þingmann flokks aðskilnaðarsinna í Quebec, um að vera kynþáttahatari eftir að Therrien hafði lagst gegn tillögu Singh sem sneri að því að þingið viðurkenndi að kerfislægt kynþáttamisrétti væri innan konunglegu lögreglunnar (Royal Canadian Mounted Police).
Fjöldi þingmanna studdi tillögu Singh en hún féll niður eftir að Therrien hafnaði henni. Singh sakaði Therrien þá um að vera kynþáttahatari vegna afstöðu sinnar og var hann þá ávíttur af þingforseta.
People have asked what happened in the House today.
— Jagmeet Singh (@theJagmeetSingh) June 18, 2020
Here are my thoughts. pic.twitter.com/VV8hX5Tq0u
Spurður um hvaða orð hann hafi notað yfir Therrien viðurkenndi Singh að hafa kallað hann rasista og játaði þar með að hafa brotið starfsreglur þingsins og eftir að hafa neitað að taka ummælin til baka var Singh vikið úr þingsalnum.
Flokkur aðskilnaðarsinna í Quebec hafa óskað eftir því að Singh biðjist opinberlega afsökunar á ummælunum. Flokkurinn viðurkenndi að kynþáttahatur væri mikið vandamál en sagðist ekki geta stutt tillögu Singh.