Erlent

Telur drápið á íranska hershöfðingjanum brot á alþjóðalögum

Kjartan Kjartansson skrifar
Auglýsingaskilti með mynd af Qasem Soleimani í Bagdad. Hershöfðinginn var drepinn í drónaárás Bandaríkjanna í Írak í janúar.
Auglýsingaskilti með mynd af Qasem Soleimani í Bagdad. Hershöfðinginn var drepinn í drónaárás Bandaríkjanna í Írak í janúar. Vísir/EPA

Sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í aftökum utan dóms og laga telur að dráp Bandaríkjastjórnar á Qasem Soleimani, yfirmanni sérsveitar íranska byltingarvarðarins, hafi verið brot á alþjóðalögum. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sakar hann á móti um að bera blak af hryðjuverkamönnum.

Níu manns féllu í drónaárás Bandaríkjahers á bílalest Soleimani á flugvelli við Bagdad í Írak í janúar. Bandarísk stjórnvöld héldu í fyrstu fram að þau hefðu látið til skarar skríða gegn Soleimani vegna aðsteðjandi hættu á hryðjuverkum. Þau hafa hins vegar aldrei rökstutt frekar hver þau voru.

Í nýrri skýrslu Agnesar Callamard, sérfræðings Sameinuðu þjóðanna í aftökum utan dóms og laga, til mannréttindaráðs þeirra segir að Bandaríkjastjórn hafi ekki lagt fram fullnægjandi sannanir fyrir því Soleimani hafi lagt á ráðin um yfirvofandi árás á Bandaríkjamenn, séstaklega í Írak, sem réttlætti tafarlausa árás á hann.

„Soleimani hershöfðingi var yfir hernaðaráætlunum og aðgerðum Írans í Sýrlandi og Írak. Án raunverulegrar aðsteðjandi ógnar við líf voru aðgerðirnar sem Bandaríkin gripu til ólöglegar,“ segir Callamard í skýrslunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Telur hún Bandaríkjastjórn hafa brotið alþjóðleg mannréttindalög en einnig að hefndarárásir Írana hafi verið lögbrot.

Talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins sakaði Callamard um „vitsmunalegan óheiðarleika“ og fullyrti að Bandaríkin hefðu gripið til aðgerða í sjálfsvörn. Skýrslan grafi undan mannréttindum með því að bera blak af hryðjuverkamönnum. Hún sýni að Bandaríkjastjórn hafi gert rétt með því að segja skilið við mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fyrir tveimur árum.

Stjórnvöld í Teheran gáfu út handtökuskipun á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta og embættismönnum sem þau telja hafa staðið að árásinni á Soleimani á dögunum. Kröfðust þau þess að alþjóðalögreglan Interpol aðstoðaði við að framfylgja skipuninni.


Tengdar fréttir

Gefa lítið fyrir handtökuskipunina

Hvorki Interpol né Bandaríkjastjórn gefa mikið fyrir handtökutilskipun sem írönsk stjórnvöld gáfu út á hendur Bandaríkjaforseta, Donald Trump, og 35 öðrum vegna dauða hershöfðingjans Qasem Soleimani í byrjun árs.

Íranir gefa út handtökuskipan á hendur Trump

Stjórnvöld í Teheran gáfu út handtökuskipun á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta og óskuðu eftir að stoð alþjóðalögreglunnar Interpol til að handsama hann í dag. Auk Trump vilja Íranir handtaka þrjátíu aðra Bandaríkjamenn sem þeir telja hafa staðið að drónaárás sem felldi íranskan herforingja í Bagdad í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×