Erlent

Trump breytir um­hverfis­verndar­lög­gjöf til að hraða fram­kvæmdum

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að gera breytingar á löggjöf sem staðfest var af Richard Nixon, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, árið 1970. Löggjöfin skyldar ríkisstofnanir til þess að eiga samráð við almenning áður en ráðist er í framkvæmdir sem gætu haft áhrif á umhverfið.

Forsetinn sagði breytingarnar vera tímamótaskref sem myndu jafnframt leiða til þess að hægt væri að flýta framkvæmdum í stórum innviðauppbyggingum. Sagði hann landsmenn mega búast við betri vegum og hraðbrautum vegna þeirra.

„Við erum að endurheimta stolta arfleið Bandaríkjanna, að vera land sem kemur hlutum í verk,“ sagði forsetinn þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

Kerfið fór í taugarnar á honum

Með breytingunum er tímaramminn fyrir athugasemdir styttur og mun matsferlið vera tvö ár eða minna, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Ákvörðun forsetans hefur verið gagnrýnd og hefur verið bent á að með þessu sé verið að stórauka hættuna á mengandi framkvæmdum og minna gegnsæi.

Forsetinn segir þó breytingarnar vera framfaraskref í átt að nútímalegra matsferli á umhverfisáhrifum. Ferlið sem hafi áður verið í gildi hafi verið „fáránlegt“ og hann hafi upplifað það sem stærstu hindrunina þegar ráðist var í framkvæmdir.

„Með þeim breytingum sem við erum að gera eru tvö ár ekki undantekningin, þau verða reglan. Þetta mun minnka samþykktarferli fyrir hraðbrautir um 70 prósent,“ sagði forsetinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×