Körfubolti

Kyrie setti á fót sjóð til að aðstoða körfuboltakonur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Irving með boltann í leik gegn Los Angeles Lakers í janúar á þessu ári.
Irving með boltann í leik gegn Los Angeles Lakers í janúar á þessu ári. Jim McIsaac/Getty Images

Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets og ein helsta stjarna NBA-deildarinnar í körfubolta, hefur ákveðið að leggja hönd á plóg og hjálpa körfuboltakonum sem spila í WNBA-deildinni.

Kyrie mun gefa rúmar 200 milljónir króna í gegnum KAI Empowerment-frumkvæðið en það er sjóður sem Kyrie hefur sett á laggirnar. Kyrie Andrew Irving er fullt nafn leikmannsins og því er nafn sjóðsins byggt á skammstöfun hans.

Sjóðnum er ætlað að hjálpa þeim leikmönnum sem munu ekki taka þátt á næsta tímabili. Skiptir engu hvort ástæðan sé áhyggjur vegna kórónufaraldursins eða að leikmenn vilji berjast fyrir samfélagslegum breytingum í Bandaríkjunum.

Í viðtali við AP-fréttastofuna sagði Kyrie að í samtali við Natöshu Cloud og Jewell Loyd, leik-menn WNBA-deildarinnar, þá hafi hann komist að þeim erfiðleikum sem margir leikmenn deildarinnar glíma við ef þær taka þá ákvörðun að spila ekki.

Kyrie vill þar með tryggja fjárhagslegt öryggi leikmanna og hefur ákveðið að leggja rúmar 200 milljónir í málstaðinn.

„Sama hvort leikmaður ákveði að berjast fyrir samfélagslegum breytingum, spila körfubolta, einbeita sér að líkamlegri eða andlegri heilsu þá mun frumkvæðið vonandi styðja við bakið á þeim og hjálpa þeim að taka ákvörðun,“ segir í yfirlýsingu sem Irving gaf frá sér.

Til að hljóta styrk þurfa leikmenn samt sem áður að sýna fram á að þær séu ekki að fá greidd laun frá félögum sínum og útskýra af hverju þær ákváðu að taka ekki þátt.

WNBA-deildin fer líkt og NBA-deildin fram fyrir luktum dyrum en þær leika í IMG-Akademíunni sem er staðsett í Flórída. Deildin hófst nú 25. júlí og mun ljúka í október næstkomandi.

Irving mun ekki leika með Brooklyn Nets er NBA-deildin fer aftur af stað í Disney World. Hann er enn að jafna sig af axlarmeiðslum og mun ekki gefa kost á sér að svo stöddu. Þá hefur hann talað opinskátt um mikilvægi samfélagsbreytinga í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

NBA stjörnur mættar til Orlando

NBA-deildin mun hefjast aftur þann 30. júlí næstkomandi eftir langa bið. Síðasti leikur deildarinnar var leikinn þann 11. mars áður en deildinni var frestað um ókominn tíma vegna Kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×