Óháðri úttekt á samkeppnishæfni stóriðju hér á landi hefur seinkað um þrjá mánuði vegna þess að það tók lengri tíma en búist var við að fá nauðsynlegar upplýsingar um hvað stóriðjan greiðir fyrir raforkuna, að sögn iðnaðarráðherra. Hún telur best að allir samningar yrðu opinberaðir.
Í febrúar var tilkynnt að fyrirtækið Fraunhofer myndi gera úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með sérstakri áherslu á raforkukostnað. Átti úttektinni að ljúka með skýrslu til stjórnvalda fyrir lok maí. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, fór yfir stöðu mála á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Hún er nú sögð væntanlega í lok þessa mánaðar.
„Það tók lengri tíma en við höfðum áætlað að fá þessar upplýsingar frá fyrirtækjunum. Menn vildu vera vissir um að það væri heimilt og að allir ætluðu að gera það,“ segir Þórdís Kolbrún sem bendir á að það sé háð samþykki beggja aðila að upplýsa um innihald samninga um kaup á raforku.
ÍSAL, sem rekur álverið í Straumsvík, hefur sakað Landsvirkjun um að mismuna stóriðjufyrirtækjum þegar kemur að kaupum á raforku og hótað að hætta starfsemi fái það ekki lægra raforkuverð. Þórdís Kolbrún segist ekki geta sagt til um hvort að úttektin geti liðkað til fyrir viðræðum ÍSAL og Landsvirkjunar en að hún telji mikilvægt að raforkusamningar verði opinberaðir.
„Við verðum bara að sjá hvort umræðan fer þegar þessi greiningarvinna liggur fyrir,“ segir hún.