Vísindamenn í Cardiff telja sig hafa fundið leið til að vinna gegn flestum tegundum krabbameins. Íslenskur krabbameinslæknir segir rannsóknir þeirra á byrjunarstigi. Hann hafi gert sambærilega rannsókn fyrir tíu árum.
Nýlega var greint frá niðurstöðu vísindamanna frá Cardiff í virtu vísindatímariti um að þeir hefðu fundið nýja tegund T-frumna til að ráðast á krabbamein. Þeir telja þessa tegund geta fundið og eytt flestum tegundum krabbameinsfrumna án þess að ráðast á þær heilbrigðu. Aðferðin hefur aðeins verið reynd á músum og frumum úr mönnum á tilraunastofu.
Gunnar Bjarni Ragnarsson, krabbameinslæknir á Landspítalanum, segir rannsóknina á algjöru byrjunarstigi.
„Hversu mörgum árum get ég ekki sagt, og það er ekkert víst að þessi tiltekna aðferð eigi eftir að nýtast til meðhöndlunar á þessum algengustu krabbameinum,“ segir Gunnar.
Hann hafi sjálfur unnið við sambærilegar rannsóknir fyrir tíu árum, sem hafi nýst til meðferðar gegn sjúkdómnum. Þó að langt sé í lækningu segir Gunnar að stórstígar framfarir hafi átt sér stað í krabbameinslækningum undanfarin ár, en meirihluti krabbameinsgreindra lifir lengur en 5 ár
Um einn af hverjum þremur Íslendingum getur átt von á að fá krabbamein einhvern tímann á ævinni, en hins vegar eru lífslíkur um helmingi betri en þær voru á sjötta áratugnum.
„Í sjálfu sér er ekki aðalatriðið að finna lækningu við krabbameini, heldur að koma krabbameini á það stig að það verði langvinnur sjúkdómur frekar en bráðdrepandi og við erum að færast nær því markmiði.

