Körfubolti

Lillard með fullt hús í kosningunni um verðmætasta leikmanninn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lillard líkar lífið vel í Disney World.
Lillard líkar lífið vel í Disney World. Kevin C. Cox/Getty Images

Damian Lillard, leikmaður Portland Trail Blazers í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið valinn verðmætasti leikmaður NBA-kúlunnar svokölluðu sem fram fer nú í Disney World í Orlandó. 

NBA-deildin ákvað að veita sérstök verðlaun fyrir þau átta leiki sem fram fóru til að hægt væri að klára bæði Austur- og Vesturdeild NBA áður en úrslitakeppnin hæfist. Þar hefur Lillard látið að sér kveðja en hann einróma val er kom að besta leikmanni NBA-kúlunnar. 

Hann er því MVP [Most Valuable Player] eða besti leikmaður NBA-kúlunnar.

Enginn leikmaður skoraði fleiri stig en Lillard í þessum átta leikjum. Var hann með 37.6 stig að meðaltali í leik. Þá gaf hann að meðaltali 9.6 stoðsendingar í leik.

Í síðustu þremur leikjunum – sem Portland varð að vinna til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina – setti Lillard 51, 61 og 42 stig.

Devin Booker, leikmaður Phoenix Suns, var eðlilega í öðru sæti en liðið vann alla átta leiki sína. Það dugði þó ekki til að komast í úrslitakeppnina.

Portland mætir Memphis Grizzlies í umspili um sæti í úrslitakeppninni. Portland þarf að vinna einn leik á meðan Memphis þarf að vinna tvo. Liðið sem fer áfram í umspilinu mætir svo Los Angeles Lakers í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×