Það verður nóg um að vera á íþróttarásum Stöðvar 2 um helgina og í dag verða tvö golfmót og sex fótboltaleikir í beinni útsendingu.
Efsta lið ensku B-deildarinnar, West Bromwich Albion, sækir Swansea heim í dag. WBA er á góðri leið með að komast upp í úrvalsdeild en er aðeins sex stigum frá liðinu í 3. sæti, Fulham, sem sækir Bristol City heim í beinni útsendingu í hádeginu.
Margir af bestu kylfingu heims halda áfram keppni á Arnold Palmer mótinu í Bandaríkjunum í kvöld en í morgunsárið er leikið á Evrópumótaröðinni í golfi í Katar.
Barcelona freistar þess að komast aftur á toppinn á Spáni, eftir tapið í El Clasico, með sigri á Real Sociedad sem er í 6. sæti. Getafe og Celta Vigo mætast svo síðar í kvöld en Getafe er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti.
Loks mætast bikarmeistarar Víkings R. og KA í Lengjubikar karla, þar sem Víkingar hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa en KA er með fjögur stig eftir þrjá leiki.
Vert er að geta þess að vegna breytinga á leikjadagskrá í ítalska fótboltanum er ekki leikur í beinni útsendingu í dag en á morgun er hins vegar stórleikur Juventus og Inter á dagskrá, kl. 19.45.
Í beinni í dag:
09.00 Commercial Bank Qatar Masters (Stöð 2 Golf)
12.25 Bristol City - Fulham (Stöð 2 Sport)
14.45 Swansea - WBA (Stöð 2 Sport)
14.50 Atlético Madrid - Sevilla (Stöð 2 Sport 2)
15.50 Víkingur R. - KA (Stöð 2 Sport 4)
17.25 Barcelona - Real Sociedad (Stöð 2 Sport 2)
17.30 Arnold Palmer Invitational (Stöð 2 Golf)
19.50 Getafe - Celta Vigo (Stöð 2 Sport)
Í beinni í dag: Tvö golfmót, spænskur, enskur og íslenskur fótbolti
