Innlent

Hafna hugmyndum um að fresta launahækkunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Drífa Snædal er forseti ASÍ.
Drífa Snædal er forseti ASÍ. Vísir/Vilhelm

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hafnar með öllu hugmyndum um frestun launahækkana og skerðingu launa sem settar hafa verið fram að undanförnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ þar sem einnig er áréttað mikilvægi þess að stjórnvöld etji ekki aðilum vinnumarkaðar saman nú þegar endurskoðun kjarasamninga standi fyrir dyrum.

Hugmyndir um að fresta launahækkunum samkvæmt gildandi kjarasamningum um eitt ár hafa verið í umræðunni að undanförnu eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, viðraði þá hugmynd á Sprengisandi á Bylgjunni um helgina, að ef til vill væri skynsamlegt að ráðast í slíka aðgerð, bæði á opinberum vinnumarkaði, sem og almennum.

Miðstjórn ASÍ fundaði í dag þar sem málið var rætt og í ályktun sem samþykkt var á fundi miðstjórnarinnar er því haldið fram að kjaraskerðing ógni ekki aðeins afkomuöryggi launafólks á krepputímum heldur hafi hún einnig skaðleg áhrif til frambúðar. Það muni bæði dýpka og lengja kreppuna.

„Bætt kjör launafólks skila sér bæði í aukinni neyslu, sem er afar áríðandi í samdrætti, og auknu skattfé, enda er launafólk helstu skattgreiðendur landsins,“ segir ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×