Nemandi í Verslunarskólanum greindist með kórónuveiruna á föstudag. Fjórtán nemendur og tveir kennarar eru nú í sóttkví en Ingi Ólafsson skólastjóri segir það til happs að nemandinn hafi fylgt öllum sóttvarnareglum skólans.
Fyrst var greint frá málinu á mbl.is fyrr í dag.
„Við erum með mjög skýrar reglur hjá okkur og við reynum að fylgjast með að nemendur fari eftir reglunum til þess að minnka skaðann ef svona gerist,“ segir Ingi í samtali við Vísi.
Hann segir skólann hafa gert ráð fyrir því að slíkt gæti komið upp. Skólanum hafi verið skipt niður í sjö sóttvarnahólf og tveir bekkir eru í hverju hólfi. Hvorum bekk er svo skipt í tvennt og kennarar ganga á milli stofa.,
Nemendur bekkjarins munu fylgja hefðbundinni stundatöflu í fjarkennslu á meðan þeir eru í sóttkví og munu kennararnir sem þurfa í sóttkví sinna kennslu rafrænt sömuleiðis. Nú sé smitrakningarteymið að vinna að því að rekja ferðir nemandans utan skólans.