Barcelona fylgdi eftir frábærum 4-0 sigri á Villarreal í fyrstu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar með 3-0 sigri á útivelli gegn Celta Vigo í kvöld.
Sigurinn var enn merkilegri fyrir þær sakir að Clément Lenglet fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 42. mínútu. Staðan var þá orðin 1-0 Barca í vil en hinn ungi Ansu Fati kom gestunum yfir á 11. mínútu leiksins. Hans þriðja mark á tímabilinu til þessa.
Lucas Olaza varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar síðari hálfleikur var aðeins sjö mínútna gamall. Efir það lögðust Börsungar aftarlega á völlinn til að verja fenginn hlut.
Það var svo Sergi Roberto sem bætti við þriðja marki þeirra þegar komið var fram á þriðju mínútu uppbótartíma. Lokatölur 3-0 Barcelona í vil sem hefur unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni af miklu öryggi.
Mikið var um spjöld í kvöld en samtals fóru 10 gul spjöld á loft ásamt einu rauðu.
Börsungar eru í 5. sæti með sex stig, stigi á eftir toppliðunum fjórum sem eru öll með sjö stig og hafa leikið einum eða tveimur leikjum meira.