Erlent

Mikil mótmæli á Ítalíu vegna hertra aðgerða

Telma Tómasson skrifar
Frá fjölmennum mótmælum í Napólí í gærkvöldi.
Frá fjölmennum mótmælum í Napólí í gærkvöldi. Getty/Ivan Romano

Til átaka kom í nokkrum stórborgum á Ítalíu þar sem hópar fólks höfðu safnast saman til að mótmæla hertum sóttvarnaaðgerðum og útgöngubanni.

Lögregla skarst í leikinn og beitti meðal annars táragasi í Mílanó til að dreifa mannfjöldanum. Þar hrópaði fólk í kór: ,,Frelsi, frelsi, frelsi."

Í Tórínó var mólótov sprengjum kastað að lögreglu en tilkynnt var um átök víðar, meðal annars í Napólí, Róm og Palermo, eftir því sem fréttaskeyti Reuters fréttaveitunnar herma.

Mótmælin hófust skömmu eftir að hertar aðgerðir stjórnvalda til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar tóku gildi, en klukkan sex að staðartíma var veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og kvikmyndahúsum gert að skella í lás og í sumum héruðum hafði útgöngubann verið fyrirskipað.

Ítalía var eitt þeirra landa sem fór hvað verst út úr fyrstu bylgju faraldursins. Í fyrstu bylgjunni fóru Ítalir umyrðalaust eftir fyrirmælum stjórnvalda, en hertar aðgerðir nú hafa hins vegar mætt víðtækri andstöðu. Aðgerðirnar gilda til 24. nóvember.

Alls hefur yfir hálf milljón manna greinst með kórónuveiruna á Ítalíu og um 37 þúsund manns dáið vegna Covid-19-sjúkdómsins sem veiran veldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×