Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir það koma sér á óvart að rjúpnaveiðimenn séu ósáttir við lítinn fyrirvara vegna tilkynningar um að það væri ekki í anda núverandi reglna að fara í ferðalög á milli landshluta við rjúpnaveiði. Það hefði ekki fyrst verið bent á það í gær. Áður hafi verið bent á það á fimmtudaginn og talað hafi verið um ferðalög á milli landshluta í margar viku.
Í yfirlýsingu frá skotveiðifélaginu Skotvís segir að félagið hafi ítrekað óskað eftir fundum með yfirvöldum fyrir rjúpnaveiðitímabilið en ekki fengið slíkan fund.
Mikil óánægja sé með tilmælin meðal veiðimanna.
Víðir sagði í samtali við fréttastofu í dag að það hafi þótt rétt að hnykkja á tilmælunum í gær. Það hafi legið fyrir að rjúpnaveiðimenn væru margir farnir af stað.
Víðir segir rjúpnaveiði vera holla og fína sem slíka. Þar séu ekki miklar líkur á smitum. Það séu ferðalögin sem séu vandamálið.
„Við heyrum áhyggjur lögregluembættanna á landsbyggðinni þar sem mikið er bókað í sumarhús, mikið bókað á hótel. Þetta er auðvitað fólk sem er þá að fara á milli landshluta. Við erum búin að tala um það í margar vikur, að hvetja fólk til að ferðast ekki á milli landshluta,“ segir Víðir.
Þar að auki hafi sérstaklega verið talað um rjúpnaveiðina á fimmtudaginn. Veiðitímabilið hafi byrjað í dag en þeir sem hafi ætlað sér að fara til dæmis um næstu helgi hafi nú nægan tíma til að velta hlutunum fyrir sér.