Dregið hefur úr krafti fellibylsins Jóta sem nú mælist sem hitabeltisstormur þar sem hann gengur yfir Mið-Ameríku. Mikil flóð hafa fylgt óveðrinu og að minnsta kosti níu hafa látið lífið í hamförunum.
Jóta náði ströndum Níkarava seint á mánudag og var þá öflugasti stormur þessa árs á svæðinu. Í gærkvöldi var vindhraðinn orðinn mun lægri en rigningarveðrið heldur þó áfram með tilheyrandi vatnavöxtum.