Fótbolti

Skil ekki að senda svona dómara eins og var á þessum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pétur Pétursson var eðlilega frekar súr að leik loknum en mjög stoltur af leikmönnum sínum. 
Pétur Pétursson var eðlilega frekar súr að leik loknum en mjög stoltur af leikmönnum sínum.  Vísir/Vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, vandaði ekki dómara dagsins kveðjurnar eftir grátlegt tap Vals í vítaspyrnukeppni gegn margföldum Skotlandsmeisturum Glasgow City. Lokatölur 1-1 þar sem mark Glasgow var vægast sagt umdeilt og Valur hefði átt að fá vítaspyrnu undir lok framlengingar.

„Mér fannst að við hefðum átt að vinna þennan leik. Það er mjög svekkjandi að tapa þessu og komast ekki áfram en svona er þetta stundum,“ sagði Pétur að leik loknum.

„Miðað við seinni hluta þessa leiks, í síðari hálfleik og framlengingunni fannst mér við spila betur en þær. Fengum færi til að skora og ég skil ekki að senda svona dómara eins og var á þessum leik. Markið sem þær skora er brot, hún sleppir vítaspyrnu hérna undir lokin sem var alveg pjúra víti. Held það sé kominn tími til að senda alvöru dómara á svona leiki ef þeir ætla að hafa þetta svona áfram,“ bætti Pétur við.

„Það fannst mér ekki, engan veginn. Engin af þeim raunar,“ sagði Pétur aðspurður hvort honum hefði dómari leiksins einfaldlega ekki verið starfi sínu vaxin.

„Stelpurnar eru að fara í landsliðsverkefni og vonum að það gangi vel hjá okkar stelpum. Við göngum stoltar frá borði eftir þennan leik. Er stoltur af því hvernig stelpurnar spiluðu þennan leik miðað við aðstæður. Er bara mjög sáttur við þær að öllu leyti,“ sagði Pétur að lokum.


Tengdar fréttir

Það er smá óbragð í munninum á manni

Hallbera Guðný var frekar ósátt með dómara leiksins sem sleppti augljósu víti undir lok framlengingar ásamt því að leyfa vafasamt mark gestanna er Valur tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Glasgow City í Meistaradeild Evrópu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×