Þriðji leikurinn í röð án sigurs hjá Real | At­letico jafnt Sociedad á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eden Hazard þurfti að fara meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik.
Eden Hazard þurfti að fara meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik. Diego Souto/Getty Images

Real Madrid tapaði í kvöld 1-2 fyrir Deportivo Alaves á heimavelli sínum í spænsku úrvalsdeildinni. Var þetta þriðji leikur Real án sigurs í spænsku deildinni. 

Til að gera hlutina enn verri fyrir Real þá vann Atletico Madrid leik sinn fyrr í dag og er nú jafnt Real Sociedad að stigum á toppi deildarinnar.

Leikur kvöldsins byrjaði hörmulega fyrir heimamenn í Real en Nacho Hernandez fékk dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs eftir aðeins fimm mínútna leik. Lucas Pérez fór á vítapunktinn og kom Alaves yfir.

Eden Hazard fór svo meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik til að bæta gráu ofan á svart. Gestirnir leiddu enn 1-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Það tók Alaves svo aðeins fjórar mínútur að tvöfalda forystu sína í síðari hálfleik. Þar var að verki Joselu og heimamenn í einkar vondum málum.

Casemiro jafnaði metin fyrir Real þegar skammt var til leiksloka en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 2-1 Alaves í vil og þriðji leikur lærisveina Zinedine Zidane án sigurs staðreynd.

Real er sem stendur í 4. sæti, sex stigum á eftir Sociedad og Atletico Madrid sem unnu Valencia 1-0 á útivelli fyrr í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira