Samskiptamiðstöðin var tekin í gagnið í gær á Landspítalanum í Fossvogi. Verkefninu var flýtt vegna stöðunnar sem kom upp hjá Landhelgisgæslunni þar sem björgunarflug liggur tímabundið niðri vegna verkfallsaðgerða flugvirkja í vikunni.
„Markmiðið er að bjóða uppá aukinn stuðning við heilbrigðisstofnanir landsins þegar bráðaatvik koma upp,“ segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Að auki muni Landspítalinn útvega þyrlulæknum Landhelgisgæslunnar ökutæki til að keyra á móts við sjúkrabíla ef bráðatilfelli koma upp út á landi. Jón segir að þjónustan geti til að mynda nýst heilbrigðisstarfsfólki á landsbyggðinni ef og þegar bílslys verður.
„Í slíkum tilfellum hafa sjúklingar verið sóttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar. En nú geta heilbrigðisstarfsmenn hringt í sérfræðilækninn okkar og fengið ráð á meðan verið er að koma sjúklingnum á spítala,“ segir Jón.
Þá getur læknir í Reykjavík líka skoðað sjúklinginn eða gögn sem honum tengjast á sama tíma og það er gert út á landi.
„Við getum þá skoðað sjúklinginn á sama tíma og heilbrigðisstarfsmaður gerir það út á landi og tekið ákvarðanir með viðkomandi um hvers konar sjúkdómur hrjáir einstaklinginn,“ segir Jón.
Jón segir að farið verði að öllum persónuverndarreglum í ferlinu. Boðið verði áfram upp á þjónustuna á spítalanum.
„Við vonumst til að þetta sé liður í því að bæta bráðaþjónustu um land allt,“ segir hann að lokum.
