LiAngelo Ball er nokkuð augljóslega töluvert á eftir bræðrum sínum Lonzo og LaMelo þegar kemur að hæfileikum. Lonzo er að fara inn í sitt fjórða tímabil í deildinni en hann leikur nú með New Orleans Pelicans.
Það var hins vegar Los Angeles Lakers sem valdi Lonzo í nýliðavalinu 2017. Lakers áttu annan valrétt og nýttu hann til að velja Lonzo en sendu hann svo til Pelicans er þeir fengu Anthony Davis yfir í Englaborgina.
Hinn 19 ára gamli LaMelo Ball var valinn í nýliðavalinu nú nýverið. Voru það Charlotte Hornets sem áttu þriðja valrétt og völdu LaMelo. Það má því með sanni segja að hinn 22 ára gamli LiAngelo sé lakastur þeirra bræðra en hann skráði sig í nýliðavalið 2018 en var ekki valinn.
Nú hefur Detroit tekið hann upp á sína arma og gefið honum svokallaðan ´Exhibit 10´ samning. Samningurinn er til eins árs á lágmarkslaunum deildarinnar. LiAngelo fær að æfa með liðinu nú fyrir tímabil en ef Detroit telur hann ekki nægilega góðan geta þeir sent hann til G-deildarliðsins Grand Rapids Drive.
Faðir þeirra, Lavar Ball, er mjög stoltur af drengjunum sínum þremur.
PROUD We re just getting started. pic.twitter.com/WmcCOAsUot
— Lavar Ball (@Lavarbigballer) December 3, 2020
G-deildin er hálfgerð varaliðsdeild NBA-deildarinnar og eru sumir leikmenn deildarinnar á þannig samning að þeir geta spilað með báðum liðum.
NBA-deildin fer aftur stað núna rétt fyrir jól og verður áhugavert að sjá hvaða Ball bróðir lætur mest til sín taka í vetur.