Fótbolti

Harder besta fót­bolta­kona í heimi að mati Guar­dian

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pernille Harder er besta knattspyrnukona ársins 2020 að mati The Guardian. Hún leikur lykilhlutverk hjá Chelsea í Englandi og danska landsliðinu.
Pernille Harder er besta knattspyrnukona ársins 2020 að mati The Guardian. Hún leikur lykilhlutverk hjá Chelsea í Englandi og danska landsliðinu. Andrea Staccioli/Getty Images

Danska knattspyrnukonan Pernille Harder er besti leikmaður heims að mati enska miðilsins The Guardian.

Pernille Harder varð dýrasta knattspyrnukona heims er Chelsea festi kaup á henni síðasta sumar. Hún er að standa undir verðmiðanum og hefur Guardian nú valið hana sem besta leikmenn kvennaboltans.

Alls eru þrír leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni í efstu þremur sætunum en ef horft er á efstu tíu sætin þá eru fjórir leikmenn Evrópumeistara Lyon þar. Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands og leikmaður Lyon, er í 24. sæti listans eins og kom fram í gær. Sara Björk var í 52. sæti listans á síðustu leiktíð og stekkur því upp um 28 sæti milli ára.

Hin 28 ára gamla Harder var einnig á toppi listans árið 2018 og er sem stendur eini leikmaðurinn sem hefur tvisvar verið valin besti leikmaður heims að mati The Guardian. Sam Kerr, samherji Harder hjá Chelsea var valin best á síðasta ári, hún er í 7. sæti listans í ár.

„Það er erfitt að mótmæla því [að Harder sé á toppi listans]. Hún spilaði lykilhlutverk er Wolfsburg varði þýska meistaratitilinn. Hún skoraði fjögur mörk í Meistaradeild Evrópu í einum og sama leiknum gegn Glasgow City þar sem Woflsburg komst enn á ný í úrslitaleikinn,“ segir í umsögn Harder á vef Guardian.

Þó úrslitaleikurinn hafi ekki farið eins og hún var hún í kjölfarið keypt á metfé skömmu eftir að hafa verið valin leikmaður ársins í Þýskalandi. Hún skoraði fimm mörk fyrir danska landsliðið á árinu og er þegar komin á blað hjá Chelsea. Ofan á það þá skapaði enginn leikmaður í Evrópu fleiri færi en Harder á árinu,“ segir einnig um þennan magnaða leikmann.

Chelsea er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Manchester United. Chelsea á hins vegar leik til góða og getur jafnað Manchester-liðið að stigum vinnist sá leikur. Eru þetta ein tvö lið deildarinnar sem hafa ekki enn tapað leik.

Athygli vekur Jackie Groenen er hæst skrifaði leikmaður Man Untied en hún er í 48. sæti listans.

Tíu bestu leikmenn heims að mati The Guardian

1. Pernille Harder, Chelsea (Danmörk)

2. Vivianne Miedema, Arsenal (Holland)

3. Lucy Bronze, Manchester City (England)

4. Wendie Renard, Lyon (Frakkland)

5. Dzsenifer Marozsán, Lyon (Þýskaland)

6. Amandine Henry, Lyon (Frakkland)

7. Sam Kerr, Chelsea (Ástralía)

8. Caroline Graham Hansen, Barcelona (Noregur)

9. Julie Ertz, Chicago Red Stars (Bandaríkin)

10. Delphine Cascarino, Lyon (Frakkland)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×