Manuel Neuer, hinn 34 ára gamli markvörður og fyrirliði Bayern München, á í viðræðum við félagið um nýjan samning og kveðst pirraður yfir því að verið sé að leka upplýsingum um viðræðurnar í fjölmiðla.
„Það hefur aldrei neinu verið lekið í öllum viðræðum sem ég hef átt við félagið á tíma mínum hérna. En núna eru sífellt að birtast í fjölmiðlum atriði úr viðræðum okkar, sem oft eru ekki sannleikanum samkvæmt. Þetta angrar mig. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef átt að venjast hjá Bayern,“ sagði Neuer við Bild.
Neuer vill halda kyrru fyrir hjá Bayern en ekki hefur enn náðst samkomulag. Samkvæmt Bild vill Neuer fimm ára samning sem myndi færa honum 20 milljónir evra á ári í laun. Thomas Kroth, umboðsmaður hans, neitar því og sagði að ekki yrðu gerðar kröfur sem myndu koma félaginu illa í kórónuveirukrísunni.
Fari svo að Neuer skrifi ekki undir nýjan samning við Bayern er talið að hann gæti verið í sigti félaga í ensku úrvalsdeildinni.
Þrátt fyrir að hlé sé á þýsku 1. deildinni vegna kórónuveirunnar og mikil óvissa ríkt síðustu vikur þá hefur Bayern gert nýja samninga við Thomas Müller og þjálfarann Hansi Flick, sem gilda til ársins 2023.
Bayern fær nýjan markvörð í sumar þegar hinn ungi Alexander Nuebel kemur frá Schalke. Nuebel, sem er 23 ára, hefur samkvæmt fjölmiðlum verið lofað að spila að minnsta kosti 10 leiki á tímabili. Neuer vill þó ekki meina að stöðu hans sem aðalmarkvarðar sé ógnað. „Svo lengi sem að ég stend mig þá spila ég. Það er það sem ég geng út frá,“ sagði Neuer við Bild.