Fyrsti áfangi Borgarlínu verður þrettán kílómetra langur og á honum verða 25 stöðvar samkvæmt fyrstu tillögum.
Leiðin liggur á milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi og er áætlað að fyrsti áfanginn verði tekinn í notkun árið 2023.
Samkvæmt mynd sem birt var fyrr í dag á Facebook-síðu Borgarlínunnar eru Vogabyggð, Höllin, Hlemmur, Lækjartorg, HÍ, BSÍ, HR og Stelluróló á meðal þeirra 25 stöðva sem teknar verða í notkun í fyrsta áfanga.
Borgarlína er hraðvagnakerfi á hjólum sem ekur á sérrými og hefur forgang á gatnamótum. Tíðni ferða á að vera mikil, stöðvar verða yfirbyggðar og með góðu aðgengi beint inn í vagnana sjálfa.
Hin svokölluðu sérrými verða lögð á árunum 2023 til 2033 að því er segir á vef Borgarlínu. Eru þau lögð inn á leiðanet Strætó og mun hluti þeirra nýtast fleiri en einni leið Borgarlínunnar.