Fótbolti

Faraldurinn gæti haft áhrif á fótboltatímabil heimsins í tvö til þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
La Liga á Spáni ætlar að reyna að klára 2019-20 tímabilið en það á eftir að koma í ljós hvort það sé mögulegt. Hér er táknræn mynd af leikbolta deildarinnar með grímu.
La Liga á Spáni ætlar að reyna að klára 2019-20 tímabilið en það á eftir að koma í ljós hvort það sé mögulegt. Hér er táknræn mynd af leikbolta deildarinnar með grímu. Getty//Europa Press

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á 2019-20 tímabilið í fótboltaheiminum en þau áhrif gætu einnig náð langt inn í framtíðina skekkist næsta tímabil líka.

Sum lönd hafa aflýst deildum sínum eins og Frakkland og Holland en önnur eru að leita allra leiða til að klára sínar deildir í sumar. Í þeim flokki eru lönd eins og England, Þýskaland, Ítalía og Spánn.

Knattspyrnusamband Evrópu vonast til að klára Evrópukeppnir sínar í ágúst en það verður tekin endanleg ákvörðun um það í næsta mánuði um hvort að það sé hreinlega gerlegt.

Lars-Christer Olsson, formaður samtaka deildarkeppna Evrópu og meðlimur í framkvæmdanefnd UEFA, segir að nú verði menn að bíða og sjá hver áhrifin verða á framtíðartímabilin og svo enn fremur á HM í Katar sem á að fara fram á miðju tímabili 2022.

Olsson telur líklegt að Kórónuveirufaraldurinn gæti haft áhrif á fótboltatímabilin í tvö til þrjú ár.

HM í Katar var alltaf að fara að búa til vandamál eitt og sér þar sem það átti að fara fram í nóvember og desember. Deildirnar í Evrópu verða því að taka sér eins og hálfs mánaða frí í kringum það heimsmeistaramót.

Fyrst um sinn þarf að koma núverandi frestuðum leikjum aftur fyrir á fótboltadagatalinu.

Það er öruggt að álagið gæti orðið mikið ætli menn að koma öllum frestuðu landsleikjunum fyrir í þeim landsleikjahléum sem þegar voru ákveðin. Það myndi þýða að landsliðin myndu væntanlega spila þrjá leiki en ekki tvo í hverju landsliðshléi.

Auk umspilsleikjanna fyrir EM þá bíða allir leikirnir í Þjóðadeildinni í haust en þar er Ísland í A-deildinni og í riðli með Englandi, Belgíu og Danmörku.

Olsson hefur áhyggjur af áhrifunum á næsta tímabil og segist frekar vilja sjá það að þetta tímabil verði ekki klárað í stað þess að seinka því að byrja næsta tímabil.

Hluti af vandamálinu er líka að þjóðirnar eru ekki að fylgjast að í þessu. Sumar þjóðir ætla því að byrja næsta tímabil á réttum tíma á meðan aðrar neyðast til að seinka því ætli þær að klára 2019-20 tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×