Leiðbeiningar um sóttvarnaráðstafanir vegna Covid-19 á tjaldsvæðum, hjólhýsasvæðum, skálum ferðafélaga og fleiri ferðamannastaða hafa verið gefnar út af landlæknisembættinu. Margir bíða ef til vill óþreyjufullir eftir að geta byrjað að ferðast innanlands enda verður lítið um utanlandsferðir í ár.
Gestum verður ekki leyfilegt að koma inn á tjaldsvæði, í skála eða fara í skipulagðar ferðir séu þeir í sóttkví, einangrun hafi verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift eða séu þeir með einkenni, þar á meðal kvef og hósta.
Þá munu rekstraraðilar þurfa að þrífa og sótthreinsa sameiginleg rými minnst tvisvar á dag.
Á tjaldsvæðum munu ekki fleiri en 50 gestir mega vera þar hverju sinni nema hægt sé að skipta svæðinu upp í 50 manna hólf og tryggja á sama tíma tveggja metra fjarlægðartakmarkanir og tvö salerni fyrir hvert hólf ásamt handþvottaaðstöðu.
Þá verður að tryggja aðskilnað milli hópa í hverju rými sé baðaðstaða í boði. Þá þarf að tryggja að lágmarki fjögurra metra fjarlægð milli tjalda, tjaldvagna, fellihýsa, hjólhýsa og annarra hýsa. Ef tjaldað er í snjó eða mjög köldu veðri skal tvöfalda fjarlægð á milli tjalda.
Á hjólhýsasvæðum þarf að tryggja að ekki séu fleiri en 50 manns á sama tíma á sameiginlegum svæðum innan þess.
Þá er tveggja metra reglan ítrekuð og minnt á að henni skuli áfram fylgt sem og fyrirmælum um handþvott og almennt hreinlæti þótt að fjöldatakmörkunum sé létt.