Spánarmeistarar Real Madrid fengu Celta Vigo í heimsókn í síðasta leik dagsins í spænsku úrvalsdeildinni.
Madridingar tóku öll völd á vellinum snemma leiks og komust raunar í forystu strax á sjöttu mínútu þegar Lucas Vazquez skoraði eftir undirbúning Marco Asensio.
Þeir félagar skiptu svo um hlutverk í upphafi síðari hálfleiks þegar Vazquez lagði upp mark fyrir Asensio.
Fleiri urðu mörkin ekki, öruggur 2-0 sigur Real Madrid staðreynd sem lyftir þeim upp í efsta sæti deildarinnar en nágrannar þeirra í Atletico Madrid eiga hins vegar þrjá leiki til góða í 2.sæti deildarinnar.