Sóttvarnalæknir sendi í gær heilbrigðisráðherra nýja tillögu um fyrirkomulag við landamærin í ljósi þess að ráðuneytið taldi ekki lagastoð fyrir tillögum hans; hvorki tillöguna um að öllum verði gert skylt að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli né tillögu hans um tveggja vikna dvöl í farsóttarhúsi.
Þórólfur hefur þess í stað lagt til að farþegar framvísi vottorði um neikvætt Covid-próf, sem ekki megi vera eldra en 48 stunda gamalt.
Tveggja vikna sóttkví eins og sprunga í stíflugarði
Sigurgeir ítrekar í samtali við fréttastofu þá afstöðu sína sem hann lýsti á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag; að það sé óviðunandi að tillögur sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærum nái endurtekið ekki fram að ganga. Þörf sé á skjótri lagasetningu sem gefi sóttvarnalækni heimild til að grípa til þeirra aðgerða sem þurfi. Hann líkir fjórtán daga-sóttkvíarmöguleikanum við sprungu í stíflugarði.
„Það er okkar afstaða að það hefði verið betra ef þessar tillögur Þórólfs hefðu farið í gegn. Við sjáum landamærin fyrir okkur svona núna, þegar allt er í kaldakol í löndunum í kringum okkur, þetta er bara eins og stíflugarður. Það er sprunga í honum, sprungan er þessi fjórtán daga möguleiki, að koma til landsins og neita að fara í sýnatöku og segjast ætla að fara í fjórtán daga sóttkví.“
Sumir á leið í bústað að skrifa bók
Sigurgeir segir starf lögreglu á Keflavíkurflugvelli við eftirlit með komufarþegum almennt ganga vel. Um eitt prósent farþega velji að fara í tveggja vikna sóttkví en fjölmörgum sé snúið til tvöfaldrar skimunar með samtali. Þá hafi mikil breyting orðið eftir að gjaldtöku fyrir skimun var hætt 1. desember. En hvað einkennir þennan hóp sem velur að fara í fjórtán daga sóttkví?
„Sumir standa bara fastir á sínu, „þetta er stjórnarskrárbundinn réttur“. Sumir eru að tala um lífsýni, að þeir vilji ekki láta taka úr sér lífsýni. En það eru alltaf einhverjir líka sem hafa góðar og gildar raunverulegar ástæður til að fara í tveggja vikna sóttkví. Fólk er að fara í sumarbústað að skrifa bók, þetta er tónlistarfólk sem er að fara út í sveit. Þannig að það gerist líka,“ segir Sigurgeir.
Skelfilegar sögur frá leigubílstjórum
Þá komi reglulega upp grunur um brot á sóttvarnareglum. Þegar slíkt gerist séu málin tilkynnt til lögreglu.
„Við sjáum oft merki þess að fólk ætli ekki að halda sóttkví. Við heyrum að fólk er að tala um að fara í vinnu, það er að fara í ferðalög. Við sjáum fólk sem er klárlega ferðamenn og ætlar sér að fara beint að ferðast. Þá látum við lögreglu vita á þeim stað sem fólk er að fara,“ segir Sigurgeir.
„Ég hef talað oft við leigubílstjóra og það sem þeir heyra farþega tala um er í raun alveg skelfilegt. Fólk er bara að skipuleggja næstu daga á ferð og flugi.“