Fjöldi lagabreytinga var tilkynntur í dag, á áttunda degi víðtækra og fjölmennra mótmæla vegna valdaránsins sem herinn framdi 1. febrúar síðastliðinn. Við valdaránið var leiðtogi landsins Aung San Suu Kyi handtekin, og tókst hernum þar með að stöðva stjórnarfarsbreytingar í átt að lýðræði sem hafa farið fram hægt og bítandi frá árinu 2011.
Greinendur segja lagabreytingarnar sem tilkynntar voru í dag minna á stjórnartíð hersins, sem varði í nær hálfa öld áður en lýðræðisþróun fór af stað í landinu. Á valdatíð hersins var landið eitt það lokaðasta í suðaustur Asíu.
Meðal þeirra lagabreytinga sem gerðar voru í dag var afnám þriggja lagagreina sem varða vernd einkalífs og öryggis almennra borgara. Meðal lagagreinanna er grein sem segir að grunaðir afbrotamenn megi ekki vera í haldi lögreglu í meira en 24 tíma án samþykkis dómstóla og lagagreinin heftir einnig rétt löggæsluyfirvalda til þess að fara inn á einkaeign og framkvæma þar leit eða handtaka fólk, án aðkomu dómstóla. Þá hefur lagagrein um njósnir einnig verið felld úr gildi.
Min Aung Hlaing, herforingi, skrifaði undir tilskipunina um lagabreytingarnar og er þar hvergi tekið fram hve lengi þessar breytingar gilda.