Hinn 28 ára gamli Alaba hefur verið orðaður við Spánarmeistara Real Madrid undanfarið og er eftirsóttur af nær öllum stóru liðum Evrópu. Alaba hefur verið á mála hjá Bayern í 13 ár en hefur ákveðið að kalla þetta gott. Er talið að launakröfur hans séu of háar fyrir Bayern.
„Fyrst og fremst vil ég nýja áskorun. Ég vill þróa minn leik,“ sagði Alaba í viðtali í dag.
Alaba er einkar fjölhæfur leikmaður og hefur leikið í stöðu miðvarðar undanfarið hjá Bayern. Einnig hefur hann spilað sem vinstri bakvörður og miðjumaður. Með austurríska landsliðinu hefur hann spilað framarlega á miðjunni eða í „holunni“ á bakvið framherja liðsins.
Bæjarar hafa nú þegar fyllt skarðið sem Alaba mun skilja eftir sig en félagið staðfesti kaup á franska varnarmanninn Dayot Upamecano fyrr í vikunni. Sá kemur frá RB Leipzig, einum af helstu keppinautum Bayern í Þýskalandi.
Alaba hefur á sínum tíma hjá Bayern unnið níu meistaratitla – sem verða eflaust tíu að loknu þessu leiktímabili – ásamt því að hafa unnið þýska bikarinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu tvívegis. Það er því ljóst að þessi sigursæli leikmaður mun vilja fara í lið þar sem barist er um alla titla sem eru í boði.
Hvaða lið það verður á eftir að koma í ljós.