Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, lagði frumvarpið fram en því er ætlað að taka á svokölluðu stafrænu kynferðisofbeldi og styrkir réttarvernd þeirra sem brotið er gegn.
Ný grein bætist við almenn hegningarlög sem hljóðar svo: „Hver sem í heimildarleysi útbýr, aflar sér, dreifir eða birtir ljósmynd, kvikmynd, texta eða sambærilegt efni af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi annars skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, en 4 árum sé brotið stórfellt.“
Einnig er óheimilt að hóta slíkri birtingu eða dreifingu.
Þá varðar það einnig sektum eða allt að eins árs fangelsi að dreifa, afrita, sýna eða hnýsast í gögn um einkamálefni annars.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fagnaði málinu þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu í dag. „Þetta sýnir eindreginn vilja Alþingis til að taka á dekkri hliðum tækniþróunar og taka í raun á kynferðislegu ofbeldi og áreitni,“ sagði Katrín og þakkaði dómsmálaráðherra fyrir að leiða málið til lykta.

Frumvarpið byggist á skýrslu sem María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur, vann fyrir stýrihóp sem forsætisráðherra skipaði í mars 2018 um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi.
Stýrihópurinn starfaði í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að ríkisstjórnin myndi meðal annars standa fyrir gerð áætlunar um að „útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi“.