Skjálftahrinan hófst rétt upp úr klukkan tíu þegar stærsti skjálftinn, sem mældist 5,7 að stærð, reið yfir. Síðan þá hefur virkni verið mikil og fjölmargir skjálftar yfir fjórir að stærð orðið á Reykjanesinu. Foreldrar barna í leik- og grunnskólanum í Grindavík voru hvattir til að sækja börnin sín í skólann.
Ásdís Vala var á meðal þeirra sem sótt voru. Móðir hennar hafði engan áhuga á að ræða við fréttamann á staðnum, ekkert fyrir athyglina, en Ásdís Vala gaf sig á tal við fréttamann með leyfi móðurinnar.
Aðspurð af hverju móðir hennar væri komin að sækja hana var Ásdís Vala fljót til svars.
„Út af því að ég var hrædd við jarðskjálftann,“ sagði Ásdís Vala. Sjá mátti tár á hvarmi en krakkarnir voru sumir hverjir í nokkru uppnámi vegna skjálftans. Ásdís Vala sagði marga krakka hafa verið hrædda.
Hún væri á leið heim úr skólanum en reiknaði með að mæta þangað galvösk aftur á morgun. Hún sagði krakkana hafa hlaupið út úr skólanum og á kunnuglegan stað.
„Við hlupum út á körfuboltavöllinn,“ sagði Ásdís Vala sem þekkir körfuboltann betur en margir enda faðir hennar Páll Axel Vilbergsson, þriggja stiga skytta með meiru, úr Grindavík.
Páll Axel starfar á Keflavíkurflugvelli og var þar við störf þegar fréttastofa náði af honum tali. Hann sagði dóttur sína almennt nokkuð harða af sér og benti á að í skólum gæti orðið ákveðinn múgæsingur þegar svona lagað gerist. Hræðsla geti smitast auðveldlega út frá sér.
Hann var ánægður hvert börnin leituðu vegna skjálftans, á körfuboltavöllinn.
„Maður er öruggur á vellinum,“ segir Páll.