Auk þess að segja frá mótmælunum hafa miðlarnir einnig greint frá hinum hörðu viðbrögðum lögreglunnar en tugir hafa fallið í átökunum síðustu vikur. Ríkismiðlarnir hafa hinsvegar svo gott sem hundsað atburðina.
Um átjánhundruð manns hafa verið handteknir síðustu daga og þar eru tugir blaðamanna á meðal, að því er fram kemur í umfjöllun breska blaðsins The Guardian um málið. Þá hafa sex blaðamenn þegar verið ákærðir fyrir lögbrot með því að greina frá mótmælunum, þar á meðal fréttaljósmyndari AFP fréttaveitunnar.
Flestir miðlanna sem misst hafa starfsleyfi sín ætla sér þó að halda áfram fréttaflutningnum, í gegnum gervihnattasjónvarp og á netinu.