Þessar hörðu aðgerðir voru kynntar í gær eftir að sautján manns greindust innanlands á þriðjudag. Þar af voru þrír utan sóttkvíar en hinir fjórtán voru í sóttkví.
Breska afbrigði veirunnar er nú ráðandi í faraldrinum en það er meira smitandi en aðrir stofnar hennar. Þá er talið að það geti valdið meiri veikindum og leggist meira á börn og ungt fólk.
Sóttvarnaaðgerðirnar gilda í þrjár vikur. Ekki mega fleiri en tíu koma saman og gilda fjöldatakmörk að meginreglu fyrir alla nema börn sem fædd eru 2015 eða síðar.
Grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum hefur verið gert að loka en leikskólar verða áfram opnir. Þó eru leikskólar á höfuðborgarsvæðinu lokaðir til hádegis í dag.
Fjölmargri annarri starfsemi er einnig lokað en hér fyrir neðan má sjá helstu breytingar á samkomutakmörkunum sem hafa tekið gildi. Þá má lesa nánar um aðgerðirnar í reglugerð heilbrigðisráðherra.
Neðst í fréttinni má síðan fylgjast með vaktinni þar sem greint verður frá öllum helstu vendingum í tengslum við faraldurinn í dag.