Gríðarleg aðsókn hefur verið á svæðinu síðustu daga. Frá því að talning hófst hafa um sex þúsund manns heimsótt gosstöðvarnar og stöðugur straumur af fólki hefur verið í dag. Jóhann K. Jóhannsson fréttamaður lýsti því í beinni útsendingu frá eldgosinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 að svæðið hafi tekið stórkostlegum breytingum frá því gos hófst fyrir viku síðan, föstudaginn 19. mars.
Gígurinn sem myndaðist fyrst var alltaf stærstur. Tveir minni gígar hafa nú sameinast í einn. Sá er orðinn jafnhár þeim fyrsta – og hraunflæði úr honum stöðugt.
Umfjöllun Jóhanns í kvöldfréttum Stöðvar 2 má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.
Jóhann var enn staddur á svæðinu nú skömmu eftir klukkan níu. Hann segir í samtali við Vísi að mikið sjónarspil sé að fylgjast með gígunum tveimur, sérstaklega í ljósaskiptunum. Þá sé mikið fjölmenni á svæðinu, nokkur hundruð manns í það minnsta.
Veður sé jafnframt með besta móti og aðstæður í raun fullkomnar. Nær alveg heiðskírt er á svæðinu en nægur vindur til að bægja gasmengun frá. Veður mun þó versna strax á morgun og ekkert útivistarveður á svæðinu um helgina.
Almannavarnir og sóttvarnalæknir hafa beint því til fólks að gæta vel að sóttvörnum á gossvæðinu. Áréttað er í tilkynningu frá almannavörnum í kvöld að fólk í sóttkví eigi ekki að fara í gönguferð. Þetta eigi við um alla í sóttkví, bæði ferðafólk og fólk búsett hér á landi. Þá sendi neyðarlínan SMS-skilaboð vegna þessa í síma á afmörkuðu svæði í kringum gosstöðvarnar í kvöld.
Spá veðurvaktar um gasdreifingu:
Norðlæg átt 5-10 m/s og þurrt að mestu á gosstöðvunum, en snýst í hægari norðaustan og austanátt í kvöld og kólnar talsvert. Gosmengun frá eldstöðvunum berst því til suðurs, en síðar til suðvestur og vesturs, og í kvöld og nótt gæti borist mengun yfir Grindavík sem væri óholl fyrir viðkvæma samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar.
Á morgun er ört vaxandi austanátt á svæðinu og með snjókomu. Gosmengun verður því áfram til vesturs og ekkert útivistarveður verður við gosstöðvarnar síðdegis á morgun eða annað kvöld.