Hann hefur stofnað til sérstaks viðburðar, eins og það heitir, á Facebook, þar sem boðað er til mótmæla undir yfirskriftinni Lokum landamærunum. Þetta gerði Herra Hnetusmjör nú í morgun.
Tónlistarmenn eru að missa þolinmæðina og vilja geta farið að halda tónleika. Herra Hnetusmjör hefur verið þar í fararbroddi eins og Vísir greindi nýverið frá.
„Við höfum fengið nóg af því að óábyrgir ferðalangar beri smit inn í landið. Frétt eftir frétt sjáum við aftur og aftur að smit eru rakin til landamærana. Nú síðast eru börn á leikskólaaldri smituð vegna brots á sóttkví. Við höfum trekk í trekk lýst yfir óánægju okkar og stjórnvöld hafa ekki hlustað. Nú sjáum við ekki annað í stöðunni en að mæta á veginn við Keflavíkurflugvöll og hindra umferð inn í landið í nokkrar klukkustundir í mótmælaskyni,“ segir í yfirlýsingu á Facebooksíðunni sem stofnuð hefur verið til að halda utan um mótmælaaðgerðir.
Þar er tilgreint að mótmælendur muni einungis leggja bílum frá „flugvellinum að hringtorginu svo við hömlum ekki nauðsynlega þjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum.“
Og Herra Hnetusmjör klykkir út með herópi: „Ég hvet alla sem hafa fengið sig fullsadda til að mæta og jafnframt halda sig inni í bílunum til að gæta að sóttvörnum.“