Morgunblaðið segir frá framboði Arnars Þórs í dag og hefur eftir honum að hann hafi tekið ákvörðunina eftir mikla íhugun. Hann hafi einnig fengið hvatningu frá fjölda fólks.
Á meðal þeirra mála sem Arnar Þór hefur tjáð sig um opinberlega var þriðji orkupakki Evrópusambandsins sem harðar deilur sköpuðust um árið 2019 og Evrópumál almennt.
Arnar Þór sagði sig úr Dómarafélagi Íslands vegna ágreinings um tjáningarfrelsi dómara og efni siðareglna þess. Hann vísaði meðal annars til lokaðs fundar sem hann segir að hafi verið haldinn um sig og tjáningu sína.
Ekki kemur fram í frétt Morgunblaðsins hvort að Arnar Þór hafi óskað eftir leyfi frá dómarastörfum sínum við Héraðsdóm Reykjavíkur eða hvort hann ætli að láta af embættinu. Hann segir blaðinu að hann telji að Ísland „standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hafi staðið frammi fyrir frá stríðslokum“.