Fótbolti

Vann fyrsta titilinn með Chiesa og þann síðasta 22 árum síðar með syni hans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon kvaddi Juventus í gærkvöldi með bikarmeistaratitli.
Gianluigi Buffon kvaddi Juventus í gærkvöldi með bikarmeistaratitli. EPA-EFE/PAOLO MAGNI

Gianluigi Buffon náði því í gærkvöldi að verða ítalskur bikarmeistari 22 árum eftir að hann vann ítalska bikarinn fyrst á ferlinum.

Buffon stóð þá í marki Juventus sem vann 2-1 sigur á Atalanta í úrslitaleiknum. Þetta var væntanlega síðasti leikur hans í treyju Juventus.

Hinn 43 ára gamli Gianluigi Buffon fær ekki annan samning hjá Juventus en það er þó allt eins líklegt að hann finni sér nýtt lið.

Buffon vann ítalska bikarinn fyrst með Parma árið 1999 en með honum í því liði var Enrico Chiesa.

Svo skemmtilega vill til að sá sem skoraði sigurmark Juventus í leiknum er enginn annar en Federico Chiesa sem er sonur Enrico.

Federico Chiesa er fæddur í október 1997 en á þeim tíma voru faðir hans og Buffon að spila með Parma liðinu.

Tímabilið sem Federico kom í heiminn þá spilaði Buffon 32 deildarleiki með Parma í ítölsku deildinni og Chiesa skoraði 10 mörk í 33 deildarleikjum. Parma endaði þá í sjötta sæti í deildinni og komast í undanúrslit bikarsins.

Liðið lék það tímabil einnig í Meistaradeildinni og skoraði Enrico Chiesa alls 21 mark í öllum keppnum á tímabilinu þar sem sex þeirra í Meistaradeildinni.

Gianluigi Buffon varð ítalskur bikarmeistari í sjötta sinn í gær en auk bikarmeistaratitilsins með Parma 1999 og þess í gær þá vann hann með Juventus 2015, 2016, 2017 og 2018.

Enginn hefur unnið ítalska bikarinn oftar en Buffon og Roberto Mancini deila nú metinu saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×